Skil og frágangur doktorsritgerða

Reglur einstakra deilda kveða á um skil doktorsverkefnis. Jafnframt er þar kveðið á um fjölda eintaka, kostnað vegna þeirra og skil til Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Að jafnaði skal ritgerð liggja frammi á skrifstofu fræðasviðs/deildar og á Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni í fjórar vikur áður en vörn fer fram. Við frágang doktorsritgerðar skal koma skýrt fram í inngangskafla ritgerðar, að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands, leiðbeinendur, fræðasvið, deild og, ef við á, rannsóknastofnun tilgreind og geta skal þeirra sjóða Háskóla Íslands sem styrkt hafa verkefnið og þeirra stofnana eða fyrirtækja utan Háskólans sem doktorsefni hefur tengst við vinnslu þess. Ritgerð skal vera á íslensku eða ensku og útdráttur á báðum tungumálum skal fylgja. Ritgerð má vera á öðru erlendu tungumáli ef doktorsnefnd samþykkir og deild getur veitt doktorsefni leyfi til að tala erlent mál við doktorsvörn. Við frágang og meðferð heimilda skal doktorsefni að öðru leyti fylgja reglum þeirrar deildar sem það brautskráist frá. Forsíða ritgerðar skal bera auðkenni (logo) Háskóla Íslands og er ekki að heimilt að auðkenni (logo) annarra stofnana en viðurkenndra háskóla séu á forsíðu. Ef um sameiginlega doktorsgráðu er að ræða með öðrum viðurkenndum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um, ber forsíða ritgerðar auðkenni beggja eða allra háskóla sem hlut eiga að máli.

Doktorsefni ber kostnað vegna útgáfu ritgerðar og annast lögbundin skil á henni til Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Rafrænt eintak ber að vista í gagnasafni Skemmu sem safnið rekur. 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is