Námslok

Doktorsnemi lýkur rannsóknum sínum með viðamikilli ritgerð. Til doktorsritgerða eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu. Meginreglan er sú að doktorsritgerð sé eitt heildstætt verk. Einnig er heimilt, skv. reglum deilda, að leggja fram greinasafn og verður það að varða sama meginrannsóknasvið og mynda heild. Þegar svo stendur á skal semja sérstaka yfirlitsgrein þar sem dregið er saman efni hinna einstöku ritgerða, settar fram heildarályktanir eða efni þeirra tengt með öðrum fræðilegum hætti.

Þegar doktorsnemi og leiðbeinandi meta doktorsverkefni tækt til varnar óska þeir eftir því við doktorsnefnd að verkefnið verði lagt fram til doktorsvarnar. Áður en til varnar getur komið skilar doktorsnefndin rökstuddu áliti til deildar um það hvort veita skuli doktorsnema kost á að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar. Telji deildin ritgerðina tæka til doktorsvarnar tilnefnir hún, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, tvo andmælendur við munnlega vörn ritgerðarinnar. Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats doktorsnefndar staðfest námsferilsyfirlit stúdents. Reglur deilda kveða á um námsmat og skipulag prófa.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is