Meistaranám

Háskóli Íslands hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra til að bjóða nám til meistaraprófs á öllum fræðasviðum sínum, skv. lögum um háskóla nr. 63/2006 og reglum um viðurkenningu háskóla nr. 1067/2006. Var viðurkenningin veitt að undangenginni faglegri úttekt erlendra sérfræðinga á gæðum starfseminnar.

Við Háskóla Íslands er lögð rík áhersla á að nám sé í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur og starfrækir skólinn formlegt gæðakerfi sem tekur til allra þátta starfseminnar, náms og kennslu, rannsókna og nýsköpunar, stjórnsýslu og stoðþjónustu. Árið 2004 samþykktu háskólafundur og háskólaráð formleg Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands og voru þau endurskoðuð árið 2012. Árið 2006 var sett á laggirnar gæðanefnd háskólaráðs og árið 2009 Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Hlutverk hennar er að tryggja og efla gæði framhaldsnáms við skólann og fylgja eftir settum viðmiðum og kröfum um námið, sbr. 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is