Doktorsvörn

Doktorsefni ver ritgerðina í Háskólanum í heyranda hljóði á þeim degi sem deildin ákveður. Rekstrarstjóri fræðasviðs og viðkomandi deildarforseti sjá um framkvæmd doktorsvarnar, ákveða stað og stund og sjá til þess að vörnin sé auglýst.

Deildarforseti stýrir doktorsvörn. Ef maður sem ekki er tilnefndur andmælandi vill taka til máls við doktorsvörn um verk doktorsefnis skal hann skýra deildarforseta frá því einum sólarhring áður en doktorsvörn fer fram.

Deildarforseti lætur doktorsefni vita um það jafnskjótt og ákvörðun liggur fyrir. Deildarforseti getur einnig leyft manni úr áheyrendahópi stutta athugasemd án slíks fyrirvara.

Doktorsvörn hefst með aðfararorðum deildarforseta sem vörninni stýrir. Því næst hefst hin eiginlega doktorsvörn með fyrirlestri doktorsefnis þar sem rannsóknarverkefnið er kynnt, helstu forsendur, fræðilegir og kenningalegir þættir, aðferðafræði, rök og niðurstöður. Fyrirlesturinn er að jafnaði 20-30 mínútna langur og ber doktorsefni að halda sig innan settra tímamarka.

Að loknum málflutningi doktorsefnis taka andmælendur til máls, samkvæmt fyrirfram gerðu samkomulagi. Andmælendur meta sjálfir hvernig þeir haga yfirferð yfir rannsókn og ritgerð doktorsefnisins og geta í framsögu sinni og spurningum til doktorsefnis beitt skýringarmyndum eða öðrum hjálpartækjum. Andmælendur eru beðnir um að fjalla stuttlega um almennt mikilvægi verksins, hvernig rannsókn doktorsefnisins tengist stöðu nýrrar þekkingar á fræðasviðinu og leggja mat á aðferðafræði verkefnisins, aðferðir og niðurstöður þess. Þegar andmælandi hefur lokið yfirferð sinni leggur hann spurningar fyrir doktorsefnið með það fyrir augum að skapa samræður fremur en langar einræður frá andmælanda og löng svör frá doktorsefninu.

Að loknu fyrirlestrahaldi, andmælum og svörum, tilkynnir deildarforseti að hann ásamt andmælendum muni víkja frá til að fjalla um hvort vörnin skuli dæmd gild og hvort veita skuli doktorsnafnbót. Verði ágreiningur skal skjóta málinu til deildarfundar.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is