Umsjónakennari og leiðbeinandi

Sérhver doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa leiðbeinanda/umsjónarkennara, sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Hann skal ávallt vera akademískur starfsmaður við Háskóla Íslands í viðkomandi grein.

Deild getur heimilað nemanda að hafa utanaðkomandi meðleiðbeinanda sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í almennum reglum Háskólans og reglum viðkomandi deildar. Ef leiðbeinandi kemur ekki úr hópi akademískra starfsmanna þarf hann að jafnaði að hafa lokið doktorsprófi til þess að mega annast leiðbeiningu doktorsnema. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinendur doktorsnema skulu uppfylla skilyrði sem sett eru í viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar er tengjast verkefni stúdents á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

Algengt er að umsjónarkennari og leiðbeinandi sé sami maður.

Umsjónarkennari, ásamt doktorsnema, leggur fram námsáætlun sem deild samþykkir.

Leiðbeinandi leiðbeinir nemanda í doktorsverkefni. Leiðbeinandi og nemandi hittast reglulega á námstímanum. Ekki er mælt fyrir í reglum um doktorsnámið hve oft þeir skulu hittast en gera má ráð fyrir að í upphafi og við lok náms séu fundir þeirra tíðari en um miðbik námsins. Hætti leiðbeinandi störfum eða geti ekki sinnt leiðbeiningu af öðrum ástæðum skal leitast við, eftir því sem kostur er, að finna nemandanum annan leiðbeinanda. Komi upp ágreiningur á milli leiðbeinanda og doktorsnema, skal honum vísað til fastanefndar um framhaldsnám sem gerir tillögu um úrlausn.

Gert er ráð fyrir að tillaga um skipan leiðbeinanda fari fyrir fastanefnd deildar eða fræðasviðs eigi síðar en í lok fyrsta misseris námsins. Í sumum deildum  er þó gerð krafa um að tillaga um skipan leiðbeinanda og doktorsnefndar (sjá næstu grein) fylgi umsókn um doktorsnám.

Miðstöð framhaldsnáms sannreynir hvort leiðbeinendur í framhaldsnámi uppfylli sett viðmið og kröfur.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is