Stefna Háskóla Íslands varðandi framhaldsnám

Fjallað er um framhaldsnám í Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Þar kemur fram að öflugt framhaldsnám sem hvílir á traustum grunni sé forsenda þess að Háskóli Íslands geti rækt hlutverk sitt og náð langtímamarkmiðum sínum. Gróskumikið rannsóknanám gerir háskólanum kleift að laða til sín bestu innlendu og erlendu framhaldsnemana og færustu kennarana.

  • Stefnt er að því að árlegur fjöldi brautskráðra doktora verði hlutfallslega sambærilegur við fjölda þeirra í nágrannalöndum okkar, eða 60-70 á ári.
  • Háskólinn beiti sér fyrir því að ríkisvaldið komi að heildstæðri fjármögnun doktorsnámsins með skýrar gæðakröfur að leiðarljósi.
  • Hlutfall brautskráðra doktora frá Háskóla Íslands sem hafa sameiginlega doktorsgráðu með erlendum rannsóknaháskólum verði a.m.k. 10% árlega.
  • Virkni doktorsnema í námi verði tryggð með því að styrkja umgjörð þess, bæta aðstöðu til námsins og skýra ábyrgð leiðbeinenda. Við upphaf doktorsnáms verði gerð krafa um raunhæfa áætlun um fjármögnun og framvindu. Fylgst verði reglulega með virkni og árangri doktorsnema, m.a. með árlegum framvinduskýrslum.
  • Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands verði efld og fest í sessi, m.a. með því að fá henni ríkara eftirlits- og samræmingarhlutverk í tengslum við framkvæmd doktorsnámsins. Gildandi Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands verði endurskoðuð, m.a. með hliðsjón af hlutverki Miðstöðvar framhaldsnáms. Skilgreind verði hliðstæð formleg viðmið og kröfur fyrir rannsóknatengt meistaranám.
  • Meistaranám verði eflt, m.a. með fullnægjandi framboði námskeiða og skipulegu samstarfi við erlenda háskóla.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is