Réttindi og skyldur doktorsnema

Doktorsnemar njóta þeirra réttinda og axla þær skyldur sem í því felst að vera nemandi við Háskóla Íslands. Eðli máls samkvæmt ber doktorsnemum eins og öðrum stúdentum og starfsmönnum að fara að reglum Háskólans og ber að forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan skólans sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám þeirra eða Háskóla Íslands.

Doktorspróf er æðsta prófgráða sem háskóli veitir og doktorsnemar hafa að ýmsu leyti hliðstæða stöðu og akademískir starfsmenn, þótt þeir séu ekki ráðnir starfsmenn. Gert er ráð fyrir að þeir séu virkir þátttakendur í faglegri umræðu hver á sínu fræðasviði og fyrirmynd annarra nemenda.

Mikilvægt er að doktorsnemar kynni sér vel þær reglur og siði sem akademískt starf lýtur og temji sér í hvívetna viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Það felur m.a. í sér að starfsfólk og nemendur sýni hvert öðru virðingu í framkomu, ræðu og riti, eigi málefnaleg skoðanaskipti, vinni saman af heilindum og forðist að láta persónuleg tengsl og hagsmuni hafa áhrif á samvinnu.

Í siðareglum Háskóla Íslands eru tilgreind atriði sem lúta nánar að þessum þáttum, s.s. ábyrgð gagnvart fræðunum, gagnkvæm ábyrgð kennara og nemenda og ábyrgð gagnvart samfélaginu. Ábyrgð gagnvart fræðunum felur í sér þá frumskyldu kennara og nemenda að vinna í anda þeirra almennu sanninda að þekking hafi gildi í sjálfu sér auk gildis hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Þeim ber þannig umfram allt að ástunda fræðileg vinnubrögð, leita sannleikans og setja hann fram samkvæmt bestu vitund. Gagnkvæm ábyrgð kennara og nemenda felur í sér þá ábyrgð kennarans að stuðla að menntun nemenda með vandaðri leiðsögn, viðeigandi kröfum, hvatningu og góðu fordæmi – og ábyrgð nemandans á því að sýna kennurum sínum kurteisi og tillitssemi, hlíta sanngjörnum fyrirmælum þeirra og vera heiðarlegir í samskiptum við þá, forðast allt misferli og taka mið af leiðbeiningum Háskólans um góða starfshætti við kennslu og próf. Ábyrgð gagnvart samfélaginu felst m.a. í því að kennarar, sérfræðingar og nemendur leggja sig fram um að efla rannsóknir í samfélaginu, sem og frjáls, málefnaleg og gagnrýnin skoðanaskipti.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is