Inntökuskilyrði eru meistarapróf af stigi 2.1 eða 2.2 eða sambærilegt próf. Skólar eða deildir geta krafist ákveðinnar lágmarkseinkunnar og sett sérstakar reglur um inntöku og hæfi nemenda.
Þekking: Við útskrift býr nemandi yfir sérfræðiþekkingu innan fræðigreinar. Í því felst að nemandi:
- búi yfir yfirgripsmiklum og ítarlegum skilningi á helstu kenningum, grundvallaratriðum, hugtökum og nýjustu þekkingu sem völ er á
- hafi haft frumkvæði að sköpun nýrrar þekkingar og túlkun hennar með rannsóknum eða annarri viðurkenndri fræðimennsku sem stenst skoðun og rýni fræðimanna
- hafi lagt til mikilvægar nýjungar í formi nýrrar þekkingar, frumlegrar nýtingar eða túlkunar á þeirri þekkingu sem fyrir er
- sýni að hann hafi þekkingu á siðfræði vísinda og hafi tekið íhugaða afstöðu til eigin rannsókna og annarra út frá eigin siðviti.
Leikni: Við útskrift getur nemandi beitt sérhæfðum aðferðum og verklagi á sérsviði fræðigreinar. Í því felst að nemandi:
- geti skipulagt og framkvæmt viðamiklar rannsóknir sem útvíkka og/eða endurskilgreina gildandi aðferðafræði fræðigreinar
- geti kannað eða þróað verkefni sem taka á nýjum vandamálum og viðfangsefnum fræðigreinar
- hafi á hraðbergi grundvallarfærni, tækni, aðferðir, efni og heimildir sem tengjast viðkomandi fræðigrein
- geti beitt gagnrýnni greiningu, mati og samþættingu við ný og flókin verkefni
- geti hagnýtt almenn og sérhæfð tæki til rannsókna og rannsóknartækni
- geti notað hugbúnað til að styðja við og bæta starf í viðkomandi fræðigrein
- geti tiltekið sérhæfðan hugbúnað til endurbóta á aðferðum og vinnulagi
- geti metið tölulegar og myndrænar upplýsingar á gagnrýninn hátt
- hafi beitt nýstárlegum rannsóknum eða þróað vinnuaðferðir sem bæta við eða víkka út gildandi þekkingarsvið viðkomandi fræðigreinar
- sýni frumleika í þróun og hagnýtingu nýrrar þekkingar, skilnings og aðferða
- hafi tileinkað sér gagnrýna afstöðu til þekkingar og hafi kynnt fræðiritgerð sem er birtingarhæf í ritrýndri útgáfu innanlands eða á alþjóðavettvangi.
Hæfni: Við útskrift geti nemandi hagnýtt þekkingu sína og leikni í starfi og/eða frekara námi. Í því felst að nemandi:
- geti tekið fulla ábyrgð á eigin verkefnum og á vinnu annarra
- geti sýnt sjálfstæði og frumkvæði í faglegri og fræðilegri vinnu
- geti á árangursríkan hátt sagt jafningjum, öðrum fræðimönnum og almenningi frá sérfræðisviði sínu
- geti tekið þátt í gagnrýnum samræðum, átt frumkvæði að og leitt fræðileg samskipti.