Hátíð brautskráðra doktora

Á síðustu 20 árum hefur doktorsnám vaxið og eflst við Háskóla Íslands. Sérstaklega hefur doktorsnámið tekið stakkaskiptum í kjölfar stefnumörkunar skólans árið 2006, en þar var rík áhersla lögð á eflingu rannsókna og doktorsnáms. Á þessum tíma hefur árangur Háskóla Íslands á sviði rannsókna og nýsköpunar stóraukist en skólinn hefur nú þrjú ár í röð raðast á meðal 300 bestu háskóla í heimi á matslista Times Higher Education World Rankings. Þennan árangur er ekki síst að þakka framlagi doktorsnema. 

Efling doktorsnáms við Háskóla Íslands styrkir ótvírætt stöðu hans sem alþjóðlega viðurkennds rannsóknaháskóla. Um leið gerir það skólanum kleift að sinna hlutverki sínu sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar. Öflugur rannsóknaháskóli er frumskilyrði þess að Ísland sé sam­keppnisfært í vísindum, nýsköpun og atvinnuþróun innan þekkingarsamfélags þjóðanna en grunnrannsóknir eru ein helsta forsenda hagvaxtar og aukinnar velsældar. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is