Tilkynningar til doktorsnema og nýdoktora vegna Covid-19

Tilkynning til doktorsnema og nýdoktora á styrkjum

Vegna mögulegra erfiðleika doktorsnema og nýdoktora á styrkjum við að sinna námi og vinnu vegna aðstöðuvanda sem hefur komið upp í tengslum við Covid-19 faraldurinn skal hafa eftirfarandi í huga:

  • Reyna skal eftir fremsta megni að sinna vinnu heiman frá í þeim tilfellum þegar ekki er hægt að sinni henni í húsnæði HÍ.
  • Ef ljóst er að um óhjákvæmilegt vinnutap er að ræða, hvort sem ástæðan er tengd lokun húsnæðis, veikindum eða vegna annarra þátta, skal halda utan um þann tíma sem tapast og skýra ástæður vinnutapsins.
  • Að loknu Covid-19 tímabilinu skal yfirlit um vinnutap og ástæður þess sent til mannauðsstjóra viðkomandi fræðasviðs, undirritað af doktorsnema/nýdoktor og leiðbeinanda/umsjónarmanni.
  • Háskólinn mun leitast við að bæta doktorsnemum og nýdoktorum sem eru á styrk upp slíkt vinnutap. Hvert mál verður skoðað sérstaklega og afstaða tekin á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga svo fljótt sem auðið er.
  • Vinsamlegast leitið til Vísinda- og nýsköpunarsviðs ef frekari upplýsinga er þörf.

 

Jón Atli Benediksson, rektor Háskóla Íslands,

20. mars 2020

Tilkynning vegna fyrirhugaðra doktorsvarna

Í ljósi erfiðleika við framkvæmd doktorsvarna vegna lokunar á húsnæði Háskólans og annarra vandamála tengd Covid-19 eru hlutaðeigandi aðilar beðnir að hafa eftirfarandi í huga:

  • Deild ákveður hvort fresta skuli öllum doktorsvörnum sem fyrirhugaðar eru á meðan á samkomubanni stendur.
  • Ef deild leyfir doktorsvarnir ákveður doktorsefnið í samráði við leiðbeinanda hvort fresta skuli viðkomandi doktorsvörn.
  • Doktorsvarnir á tímum samkomubanns fara fram í gegnum fjarbúnað. Andmælendur og doktorsnefnd eru tengd fjarbúnaði og vörninni er streymt til að aðrir geti fylgst með.
  • Lagt er til að doktorsefnið, leiðbeinandi og deildarforseti, sem stýrir vörn, séu staðsettir í sama rými í byggingu háskólans á meðan á vörn stendur og skulu hafa amk 2ja metra fjarlægð á milli sín. Aðrir eru ekki leyfðir í rýminu og geta einungis tekið þátt í vörninni í gegnum fjarbúnað eða fylgst með vörninni í gegnum streymið.
  • Deildarforseti ákveður nánari útfærslu á tilhögun varnarinnar við þessar óvenjulegu aðstæður.

 

Fyrir frekari upplýsingar er bent á verkefnisstjóra doktorsnáms á viðkomandi fræðasviði.

 

Jón Atli Benediksson, rektor Háskóla Íslands,

20. mars 2020

Tilkynningar birtar einnig á Viðbúnaði vegna COVID 19

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is