Faglegar kröfur til leiðbeinenda

Leiðbeinandi skal að jafnaði:

  • hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess á viðkomandi fagsviði. Hæfnisdómur fyrir starf prófessors getur komið í stað doktorsprófs,
  • vera viðurkenndur og virkur sérfræðingur á viðkomandi fagsviði,
  • vera í virkum tengslum við innlent og alþjóðlegt vísindasamfélag og kynna það fyrir nemendum sínum,
  • hafa birt ritsmíðar sem m.a. tengjast verkefni nemanda, á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur,
  • hafa sýnt fram á ritvirkni, mælda í rannsóknastigum skv. matskerfi opinberra háskóla, sem nemur a.m.k. 15 rannsóknastigum á ári úr tilteknum flokkum matskerfisins (svonefndum aflstigum) eða sem nemur 30 heildarrannsóknastigum að meðaltali sl. 3 ár. Stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms er heimilt að víkja frá þessari kröfu þegar sérstaklega stendur á (dæmi um slíkt er ef leiðbeinandi uppfyllir ekki kröfu um annað hvort rannsóknastig eða aflstig en uppfyllir vel aðrar faglegar kröfur. Þetta á t.d. við um reynda vísindamenn sem eiga að baki farsælan rannsóknaferil og leiðbeiningarreynslu),
  • hafa reynslu af leiðsögn í doktorsnámi, t.d. með setu í doktorsnefndum, eða umtalsverða reynslu af leiðbeiningu í rannsóknatengdu meistaranámi,
  • hafa umtalsverða reynslu af öflun sértekna frá viðurkenndum rannsóknasjóðum,
  • hafa umtalsverða reynslu af rannsóknasamstarfi með alþjóðlega viðurkenndum sérfræðingum á viðkomandi fagsviði utan Háskóla Íslands.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is